LÆKNAMISTÖK

Bótaréttur kann að vera til staðar ef líkamstjón verður af völdum meðferðar heilbrigðisstarfsmanns og/eða vegna fylgikvilla meðferða eða rannsókna. Ekki skiptir máli hvort um er að ræða tjón sem verður á heilbrigðisstofnunum sem eru reknar af hinu opinbera eða einkaaðilum. Samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu eiga þeir aðilar sem verða fyrir einhvers konar tjóni eftir meðhöndlun heilbrigðisstarfsmanns, hvort heldur sem er líkamlegu eða andlegu, bótarétt vegna óviðunandi læknismeðferðar eða rannsókna.

Sjúkratryggingar Íslands hafa umsjón með þessum tryggingum og ná þær til allra heilbrigðisstofnana sem ríkið á og rekur. Sjúklingatryggingar eru líka í gildi á einkareknum heilbrigðisstofnunum, eins og að ofan getur, en sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn eru tryggðir hjá einhverjum af íslensku vátryggingafélögunum. Fari svo að einstaklingur verði fyrir tjóni hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanni, sækir tjónþolinn um bætur hjá vátryggingafélagi viðkomandi starfsmanns.

Ef einstaklingur verður fyrir því óláni að þurfa á læknismeðferð að halda eða vistun á sjúkrahúsum erlendis nær sjúklingatryggingin einnig yfir það. Ráðlagt er að halda vel utan um öll gögn sem tengjast málinu og gera sér grein fyrir því að ferlið getur verið langt, flókið og oft á tíðum kvíðavaldandi fyrir einstaklinga. Mikilvægt er að fá réttar upplýsingar og faglega aðstoð í gegnum ferlið.